Ferðirnar
Kringum heiminn |
Færeyjar og Skotland |
Suður Bretland |
Reykjavik - Nordkap |
Reykjavík - Gíbraltar |
Route 66 |
Alaska |
Los Angeles - Ushuaia |
16. maí - Tallin |
Wednesday, 16 May 2007 | |
Nú eru þeir komnir til Tallin eftir ótrúlegan dag. Í morgun var farið í rússneska sendiráðið í Helsinki og þar byrjuðu þeir á því að bíða í 1 1/2 tíma. Síðan þegar búið var að ræða málin var niðurstaðan að þeir yrðu að sækja um nýtt vísa inn í Rússland sem þeim leist ekki mjög vel á. En svo var þarna einhver kona sem sagði þeim að fara á ferðaskrifstofu þarna í næsta nágrenni og athuga hvort þar væri eitthvað hægt að gera. Þegar þangað var komið sögðu þeir sína raunarsögu og hvort það væri ekki möguleiki að bjarga þessu máli einhvernveginn. Þeim var sagt að koma aftur um þrjú leytið. Á meðan leituðu þeir og fundu fyrir rest bensínstöð þar sem tekið var til við að skipta um olíu og síur. Í miðjum klíðum rennir ekki inn á bensínstöðina forláta Landróver og út úr honum stígur sjálfur sendiherrann Hannes Heimisson, en hann var að fara kaupa viðarkubba í arininn! Þeir spjalla dágóða stund saman, en alveg ótrúlegt hvernig svona lagað gerist, heimurinn er jú ekkert rosalega stór. Jæja, svo er kominn tími til að fara aftur á ferðaskrifstofuna til að kanna hvernig þar gengur og vitir menn þeir ganga þaðan út með 30 daga vísa í Rússlandi og ferðatryggingu með í kaupbæti. Eitthvað þurfti jú að borga fyrir þetta en hvað skiptir það, málinu reddað og þeir kampakátir. En nú var kominn tími til að athuga ferjuferðir yfir til Tallin. Sendiherrann hafði bent þeim á ákveðið skipafélag sem siglir þangað yfir og þeir mæta í röðina. Svo þegar kemur að þeim þá er sagt að það sé fullbókað í þessa og næstu ferð. Úff. Þeir segjast vera á mótorhjólum og hvort ekki sé möguleiki. Þeim er bent á að bíða, og þeir bíða og bíða. 10 min. fyrir brottför er kallað í þá og þeim sagt að drífa sig um borð. Hjólunum er komið fyrir milli stórra trukka og þeir kampakátir á leið til Tallin. Um borð í ferjunni tekur Einar eftir því að nágranni hans Sveinbjörn Egilsson hefur verið að reyna ná í hann í síma í allan dag. Það hafði verið talað um áður en hann fór að það væri nú gaman ef þeir myndu hittast í Tallin en Sveinbjörn átti leið þar um einnig. Og svo fór að Sveinbjörn var settur í það að finna hótel handa þeim bræðrum og svo ætluðu þeir að hittast og borða saman. Þegar ferjan er komin að landi taka við pappírsmál sem þeir voru búnir að undirbúa sig undir, allt skoðað í krók og kima. Það gekk allt saman mjög vel og þegar þeir eru að stíga á hjólin kemur ekki Sveinbjörn hlaupandi og urðu fagnaðarfundir. Áttu þeir ánægjulega kvöldstund saman. Í dag hjóluðu þeir um 60 km. í sól og blíðu. Planið fyrir næstu tvo daga er að komast að landamærum Litháens og Hvíta-Rússlands. Bestu kveðjur heim.
|
< Fyrri | Nst > |
---|