Wednesday, 13 June 2007 |
Hjóluðu um 340 km. í dag á afspyrnu leiðinlegum vegi sem er nýuppbyggður, hálf karaður og mjög grófur. Annars fínt veður, sól og blíða. Mikið skóglendi og var töluvert erfitt að finna tjaldstæði fyrir nóttina. Þurftu að hjóla í hálfgerðu feni þar sem Einar lagði hjólið eina ferðina enn, en þetta var nú enginn skellur bara rólegheitarbylta. Þeir enduðu einhverstaðar uppi í fjalli í malarnámu þar sem þeir ákváðu að tjalda. Búnir að kveikja upp í varðeldinum og Einar kominn í flugugallann s.s. hjólagallinn og vonandi láta þær hann í friði í kvöld.
Annars er mikill hitamunur milli dags og nætur. Á nóttunni hafa þeir haft hjólajakkana yfjir sér til að halda á sér hita.
Það var í fréttunum um daginn að mikið væri af maðki þarna í Síberíu og Rússarnir væru að eitra á fullu. Þeir sögðu að mikið hefði borið á fiðrildum svo það er spurning hvort ormatímabilið sé búið og fiðrildin komin í fullan skrúða og farin að fljúga um loftin blá.
Í dag sáu þeir Svíann tilsýndar sitjandi inni í fluttningabíl og hjólið aftan á palli. Þeir gátu ekki talað við hann svo þeir vita ekki hvort eitthvað hefur bilað eða hvort hann hefur gefist upp á þessari leið og hefur húkkað sér far yfir áleiðis til Vladivostok. Það verður gaman að fá fréttir af því. En þangað til kveðjur úr malarnámunni.
|